Verk og tæki bauð lægst í Urriðafossveg

Urriðafossvegur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verk og tæki ehf á Selfossi átti lægsta tilboðið í endurbyggingu Urriðafossvegar og bílaplans við Urriðafoss en tilboð voru opnuð í dag.

Tilboð Verk og tæki hljóðaði upp á 35,9 milljónir króna en öll tilboðin voru yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem var 34,6 milljónir króna.

Suðurtak átti næst lægsta tilboðið, 42,3 milljónir króna og þar á eftir kom vörubílstjórafélagið Mjölnir með 42,4 milljónir króna. Nesey ehf bauð 43 milljónir króna í verkið.

Um er að ræða endurbyggingu Urriðafossvegar á 1,2 km kafla frá Þjóðvegi 1 að bílaplaninu við Urriðafoss. Verkinu á að vera lokið þann 15. júní næstkomandi.