„Verðum eitthvað fram á nóttina“

Lárus Kristinn, varaslökkviliðsstjóri, á þönum á vettvangi eldsvoðans í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Slökkvistarf gengur ágætlega, við erum að vinna í efstu hæðinni og þakinu. Húsið stendur enn en það er mikið skemmt,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is laust eftir klukkan 21 í kvöld.

Eldur kviknaði í Hafnartúni, stóru einbýlishúsi í miðbæ Selfoss á áttunda tímanum í kvöld. Húsið er á tveimur hæðum, auk kjallara og háalofts en ekki var föst búseta í því síðustu árin. „Það er ekki talið að neinn hafi verið í húsinu þegar eldurinn kom upp, eftir því sem ég best veit,“ sagði Lárus.

Hættulegar aðstæður
„Við undirbjuggum reykkafara en ákváðum síðan að senda þá ekki inn. Aðstæður voru einfaldlega of hættulegar, enda eldurinn gríðarmikill þegar að var komið. Þannig að slökkvistarf fer allt fram utanfrá,“ segir Lárus en vel gekk að slá á eldinn í upphafi.

„Já, það gekk ágætlega í upphafi en við verðum hérna eitthvað fram á nóttina. Það eru mörg rými í húsinu og flókið að koma vatni að eldinum. Við erum vel settir með vatn, það er stutt í næsta brunahana en ljóst að við verðum hérna eitthvað frameftir,“ sagði Lárus að lokum en 25 slökkviliðsmenn frá stöðinni á Selfossi voru kallaðir út vegna brunans.

Slökkviliðsmaður efst í stigabíl BÁ með eldhafið fyrir framan sig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Gríðarlegt eldhaf mætti slökkviliðinu þegar það kom á vettvang í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHafnartún brennur
Næsta greinHamar/Þór valtaði yfir toppliðið