Verður tæpast að veruleika nema vegna stóriðjuáforma

Að sögn Indriða Kristinssonar, hafnarstjóra, myndi líklega kosta á milli 7 og 8 milljarða króna að byggja stórskipahöfn í Þorlákshöfn.

Það væri þá ríflega tvöfaldur kostnaðurinn við Landeyjahöfn. Hugmyndir um slíkt koma upp með reglulegu millibili og á nýafstöðun ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var samþykkt ályktun þar sem lögð er áhersla á að kannaðir verði allir möguleikar á gerð stórskipahafnar í Þorlákshöfn.

Verulegar endurbætur voru gerðar á höfninni í Þorlákshöfn fyrir fáeinum árum. Þrátt fyrir framkvæmdirnar er höfnin ekki stórskipahöfn og því ákveðin takmörk sett. Ein af forsendum vaxtar og orkufrekrar starfsemi á svæðinu er að stórskipahöfn sé í nágrenninu.

Þá er ljóst að verulegt hagræði gæti orðið með slíkri höfn fyrir vöruflutninga og ferjusiglingar á milli Íslands og annarra landa vegna styttri siglingaleiðar.

Indriði sagðist ekki hafa trú á að höfnin yrði að veruleika nema ef til kæmi stóriðjuverkefni. Siglingastofnun hefur unnið frumdrög að slíkri höfn þannig að menn eru orðnir þokkalega vel undirbúnir sagði Indriði.

Fyrri greinTekist á um skipulag Áfangagils
Næsta greinÓskar áfram formaður á Hellu