„Verðum vonandi meira en sjoppustopp“

Talsverð eftirvænting ríkir meðal ferðaþjónustuaðila á Laugarvatni vegna opnunar gömlu gufunnar eða Laugarvatn Fontana þann 1. júlí nk.

Að sögn Smára Stefánssonar, sem rekur tjaldstæðin á Laugar­vatni, gætir talsverðar eftirvænt­ingar meðal ferðaþjónustuaðila á svæð­inu. „Laugarvatn hefur hingað til verið hálfgerð pylsusjoppa en gufubaðið kemur von­andi til með að hægja á umferð­inni. Við verð­um vonandi meira en bara sjoppu­stopp,“ sagði Smári.

Undir þetta tekur Baldur Öxdal Halldórsson, veitingamaður í Lind­inni. Hann sagðist gera ráð fyrir talsverðri breytingu í ferða­þjónustunni á Laugarvatni með opnun guf­unnar. „Annars er mikil tilhlökkun fyrir mann sjálfan að komast aftur í gufu,“ sagði Baldur.

Ferðaþjónustuaðilar á Laugar­vatni hugsa sér gott til glóðarinnar og er víða verið að auka framboð af afþreyingarmöguleikum auk þes sem unnið hefur verið að breyt­ingum á gisti- og veitingastöðum. Á Laugarvatni eru tvö Edduhótel, farfuglaheimili og svo er bænda­gisting víða í kring.

Fyrri greinTvöfaldar kornsáningu milli ára
Næsta greinBrýnt að bæta aðgengi blindra og sjónskertra