Verðlaunin komu skemmtilega á óvart

Harpa Dís Harðardóttir, í Björnskoti á Skeiðum, hlaut á dögunum Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands, og var það forseti Íslands sem afhenti verðlaunin.

Þau fékk Harpa í flokki einstaklinga, fyrir metnaðarfullt starf við gerð orlofshúss með góðu aðgengi fyrir fatlað fólk og áralanga baráttu fyrir réttindum þess.

Segir í umsögn dómnefndar að með hugsjóna- og sjálfboðavinnu hafi hún og fjölskylda hennar breytt lítið nýttu húsi Þroskahjálpar á Selfossi, í ásetið orlofhús með góðu aðgengi. Auk þess hafi hún unnið að réttindamálum fatlaðra til fjölda ára hjá Einstökum börnum, Þroskahjálp og í félagsmálum almennt í sveitastjórn, en Harpa er hreppsnefndarmaður í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

„Ég er auðvitað mjög ánægð með þetta, það er alltaf gaman að fá klapp á bakið,“ segir Harpa Dís.

Það er einmitt Þroskahjálp á Suðurlandi sem á húsnæði í Lambhaga 48 á Selfossi sem breytt var í orlofshús fyrir fatlaða og var tekið í notkun sem slíkt í fyrra.

„Við lögðum áherslu á að halda því áfram í notkun með einhverju móti og ég fékk þá hugmynd að breyta því í orlofshús,“ segir Harpa Dís sem sjálf á fötluð börn. „Ég hef af eigin reynslu kynnst því að venjuleg orlofshús henta ekki fyrir fatlaða og ýmis aðstaða ekki fyrir hendi í þeim, til að mynda aðkoma eða baðherbergi og slíkt,“ segir Harpa.

Hún tók því að sér það verkefni að breyta húsinu en það þurfti að innrétta það eins og heimili með ærnum tilkostnaði. „Ég fór því á biðilsbuxurnar og talaði við fjölmörg fyrirtæki og aðila sem tóku mér vel. Það lögðu okkur margir lið í þessu,“ segir hún.

Og eftirspurnin varð strax mikil. Félagsmenn í Þroskahjálp, Umhyggju, Öryrkjabandalaginu og hliðstæðum samtökum um allt land geta sótt um að leigja húsið og var húsið upp pantað í allt sumar og er einnig vinsælt um helgar yfir vetrartímann.

Fyrri greinEkki framkvæmdir án vegatolla
Næsta greinSuðurlandsslagur á Laugarvatni