Velferðar- og skólaþjónusta Árnesþings verður til um áramótin

Sveitarfélögin í Árnesþingi utan Árborgar vinna nú að því að koma á laggirnar sameiginlegri skólaþjónustu því Skólaskrifstofa Suðurlands verður lögð niður um áramótin.

Lagt er upp með að reka skólaþjónustuna samhliða velferðarþjónustunni, það er, að stofnuð verði Velferðar- og skólaþjónusta Árnesþings. Tillaga að skipuriti og starfslýsingum liggur fyrir og er áætlað að þjónusta hefjist um áramót. Auglýsa þarf eftir þremur starfsmönnum, tveimur kennsluráðgjöfum, bæði fyrir leik- og grunnskóla og einum sálfræðingi sem á að sinna bæði velferðar- og skólaþjónustunni.

Einnig er ljóst að breyta þarf samningi um velferðarþjónustuna og endurskoða samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélaganna. Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði, sem er stærsta aðildarsveitarfélagið, er kostnaður vegna skólaþjónustunnar á ársgrunni áætlaður um 35 milljónir króna, fyrsta árið, sem skiptist niður á sveitarfélögin í samræmi við fjölda nemenda í leik- og grunnskólum. „Ég reikna með að þetta sé nokkuð rúmt fyrsta árið,“ segir Aldís.

Fyrri greinHveragufa villti um fyrir rjúpnaskyttu
Næsta greinVeðurguðirnir valda frestun