Velferð veitir þverfaglega ráðgjöf

Jónína Guðmundsdóttir, héraðsdómslögmaður, opnaði á dögunum nýja lögmannsstofu á Selfossi, Velferð Lögfræðiþjónusta.

Jónína verður í samstarfi við félagsráðgjafana Agnesi Þorsteinsdóttur og Svanhildi Ólafsdóttur hjá Velferð, fræðslu- og velferðarmiðstöð og saman munu þær starfa undir merkum Velferðar. Velferð er til húsa á 3. hæð á Austurvegi 6.

„Þetta er mjög spennandi verkefni en margir skjólstæðingar okkar þurfa einmitt bæði félags- og lögfræðiráðgjöf. Þarna erum við því að mæta þörfum skjólstæðinga okkar með því að vera á sama stað og á sama tíma nýta þekkingu okkar allra og veita þverfaglega ráðgjöf. Ég mun áfram sinna allri almennri lögfræðiráðgjöf og málflutningi fyrir dómi þannig að það verður engin breyting þar á,“ segir Jónína sem hefur undanfarin ár starfað sem lögmaður og áður sem fulltrúi hjá sýslumanni og lögreglustjóra.

Nú er rétt rúmt ár síðan Agnes og Svanhildur settu Velferð á laggirnar. Þær segja að reksturinn hafi gengið vel og greinilegt sé að vöntun hafi verið á þjónustu sem þessari á svæðinu.

„Við fundum strax fyrir því að það var þörf fyrir velferðarmiðstöð eins og þessa. Markmið Velferðar er að veita þverfaglega þjónustu þar sem einstaklingar, fjölskyldur, fyrirtæki og stofnanir geta sótt ráðgöf og þjónustu. Það er þess vegna einstaklega ánægjulegt að við getum nú boðið upp á lögfræðiþjónustu hér undir sama þaki.“