Vélarvana togari út af Skarðsfjöru

Björgunarsveitir og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Höfn, Vestmannaeyjum, Kirkjubæjarklaustri, Meðallandi og Vík voru kallaðar út í kvöld vegna vélarvana skips sunnan við Skarðsfjöru.

Um er að ræða togara með tíu manns í áhöfn og talið er að eitthvað hafi farið í skrúfuna. Skipið er því vélarvana, um eina sjómílu fá landi en akkeri skipsins halda og er það því ekki á reki.

Skipið sem er vélarvana utan við Skarðsfjöru er um eina sjómílu frá landi. Akkerin halda svo hann helst nokkuð kyrr

Áætlað er að það taki björgunarskipin um fjórar klukkustundir að ná á staðinn. Björgunarsveitir eru mættar í Skarðsfjöru og eru þar til taks ef á þarf að halda.

Vindur er að landi svo brýnt er að takist að komast sem fyrst að skipinu til að tryggja öryggi þess.

Uppfært 08:39: Neta- og dragnótabáturinn Kristbjörg VE-071 er nú á leið til Vestmannaeyja í eftirdragi línubátsins Páls Jónssonar GK7. Landhelgisgæslan aflýsti hættuástandi í Meðallandsbukt, þar sem Kristbjörg var vélarvana, á öðrum tímanum í nótt en þá var taug komin milli skipanna og þau fjarlægðust land.

Fyrri greinSelfyssingar réðu ekki við Val
Næsta greinHyggjast gera tíu íbúðarlóðir