Vel tekið í áform um smávirkjun í Bláfelli

Byggðaráð Bláskógabyggðar tekur vel í erindi Neyðarlínunnar um að byggja smávirkjun í vestanverðu Bláfelli sem myndi sjá sjá fjarskiptastöð Neyðarlínunnar fyrir orku.

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, mætti á síðasta fund byggðaráðs og kynnti möguleg áform fyrirtækisins um smávirkjun í Bláfelli.

Í dag er fjarskiptastöðin aflfædd með sígengis-olíurafstöð sem staðsett er í gámi neðan við Bláfell. Með uppsetningu þessarar smávirkjunar myndi rekstraröryggi aukast, dregið yrði úr hljóð- og loftmengun og ekki þyrfti að hafa díselolíu í tönkum á svæðinu.

Byggðaráð Bláskógabyggðar tók vel í erindið. Því er beint til Neyðarlínunnar að sækja þarf um leyfi fyrir fyrirhugaða framkvæmd hjá skipulags- og byggingafulltrúa uppsveita og einnig þarf að liggja fyrir samþykki Forsætisráðuneytisins, þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir eru innan þjóðlendu.

Fyrri greinEyþór tekur sæti í bæjarráði
Næsta greinHundrað manns á haustfundi í Þingborg