Vel sótt afmælishátíð BES

Nemendur 5. bekkjar fluttu atriði úr Bláa hnettinum. Ljósmynd/Árborg

Síðastliðinn laugardag var haldið upp á 170 ára afmæli Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri í tilefni af afmæli hans þann 25. október. Hátíðin var vel sótt og dagskráin vegleg.

Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, skólastjóri, flutti ávarp og börn frá leikskólanum Strandheimum voru með söngatriði. Edda Óskarsdóttir flutti erindi sem Óskar Magnússon, faðir hennar og fyrrverandi skólastjóri, samdi og eldri kór Barnaskólans tróð upp á undan ávarpi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar.

Þá var Fjóla S. Kristinsdóttir, bæjarstjóri, með ávarp og tónlistaratriði kom frá Tónlistarskóla Árnesinga. Magnús Karel Hannesson sagði reynslusögu úr skólastarfi fyrri tíma og nemendur 5. bekkjar fluttu atriði úr Bláa hnettinum undir leikstjórn Magnúsar J. Magnússonar, fyrrum skólastjóra.

Ýmsir aðilar færðu skólanum góðar gjafir sem við þökkum kærlega fyrir. Kvenfélag Stokkseyrar bauð uppá þjóðlegar veitingar í lok samkomunnar og gestir röltu um skólann þar sem búið var að hengja upp gamlar ljósmyndir og gamlir og nýir munir voru til sýnis.

Opið hús á Eyrarbakka og Stokkseyri
Dagskráin heldur áfram alla þessa viku en í dag verður opið hús og allir velkomnir á Stað á Eyrarbakka kl. 12:45 til 14:00 þar sem nemendur í viðburðavali og skólahreysti verða með þrautir og bjóða elstu deildum leikskólans á Stað.

Á morgun, fimmtudag verður opið hús og hrekkjavökuföndur í skólanum á Stokkseyri kl. 10 til 12 og á föstudag verður opið hús á Eyrarbakka þar sem sett verður upp kaffihús, boðið upp á ljósmyndasýningu og sýningu á gömlum myndum og munum.

Hátíðin var vel sótt og dagskráin vegleg. Ljósmynd/BES
Fyrri greinBandarískur bakvörður til Þórsara
Næsta greinÁrborgarstrætó – fyrir alla