Vel í stakk búið til að setja aukinn kraft í framkvæmdir

Á Hvolsvelli. Ljósmynd/Aðsend

Sveitarstjórn Rangárþings eystra ætlar að setja aukinn kraft í fjárfestingar og viðhaldsframkvæmdir til þess að sporna við samdrætti sem á sér stað á öðrum stöðum í atvinnulífinu vegna COVID-19 faraldursins.

Ferðaþjónusta hefur verið ört vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu undanfarin ár en þar ríkir nú mikil óvissa um hve langvinn áhrifin verða en mikið tekjutap verður innan greinarinnar á meðan þetta ástand ríkir.

Í tilkynningu frá sveitarstjórninni segir að sveitarfélagið standi vel fjárhagslega og er vel í stakk búið til þess að setja aukinn kraft í framkvæmdir og fjárfestingar.

Sveitarstjórnin hefur gert það að tillögu sinni að aukinn þungi verði settur í framkvæmdir sem nú þegar hafa verið áætlaðar á vegum sveitarfélagsins. Þar á meðal má nefna hönnun og byggingu nýs leikskóla á Hvolsvelli, viðhald og endurnýjun á veitukerfum og gatnagerð í nýju íbúðarhverfi norðan Króktúns.

Einnig er ætlunin að fjölga nýjum störfum á vegum sveitarfélagsins, setja í gang framkvæmdir við nýjan miðbæ á Hvolsvelli og átak í bættri ásýnd sveitarfélagsins auk þess sem sett verði af stað markaðsátak fyrir sveitarfélagið. Einnig horfir sveitarstjórn til uppbyggingar göngu og hjólreiðastíga til að auka enn frekar tækifæri til útivistar og heilsueflingar.

Fyrri greinHellisheiðin opin!
Næsta greinÖlfus greiðir heimagreiðslur til foreldra