Í gær fór fram stór æfing viðbragðsaðila á flugvellinum á Höfn í Hornafirði, þar sem æfð voru viðbrögð við flugslysi.
Alls tóku um 140 manns þátt í æfingunni og þar af voru 20 leikarar. Æfingin gekk afar vel og reyndi á helstu þætti bæði í vettvangi en einnig í samhæfingu aðgerða.
Æfingin hófst kl. 11:07 þegar viðbragðsaðilar voru boðaðir út á hættustigi vegna flugvélar með bilaðan hjólabúnað í aðflugi að Hornafjarðaflugvelli. Þegar fyrstu viðbragðsaðilar voru að mæta á vettvang voru send önnur boð um neyðarstig, sem þýðir að vélin hafi brotlent.
„Flugslysaæfingar eru haldnar að frumkvæði Isavia með þátttöku allra viðbragðsaðila sem hafa hlutverk í viðbragðsáætlun hvers flugvallar. Þessar æfingar eru afar mikilvægar til þess að samræma viðbrögð aðila og láta reyna á viðbragðsáætlanir,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.
Aðgerðastjórn almannavarna var virkjuð á Selfossi vegna æfingarinnar. Einnig var Samhæfingastöðin í Skógarhlíð mönnuð og þar var æft að takast á við tvær hópslysaæfingar á sama tíma því í gær var einnig hópslysaæfing hjá viðbragðsaðilum á Norðurlandi vestra, þar sem æfð voru viðbrögð við hópslysi rétt við Blönduós.
Myndirnar hér að neðan eru frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.