Vel heppnuð afmælisveisla Stjörnunnar

Ljósmynd/Aðsend

Björgunarsveitin Stjarnan í Skaftártungu fagnaði 50 ára afmæli um helgina með afmælisveislu og vígslu á húsi sveitarinnar.

Boðið var til veislu síðastliðinn laugardag og að sögn Pálmars Atla Jóhannssonar, formanns sveitarinnar, heppnaðist dagurinn einstaklega vel og frábært var að sjá hversu margir gáfu sér tíma til að koma og fagna áfanganum.

Fjöldi gesta heimsótti sveitina á þessum fallega degi, meðal annars þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar, fulltrúar Landsbjargar og annarra björgunarsveita. Séra Ingimar Helgason vígði og blessaði bygginguna og börn úr Skaftártungu fluttu tónlistaratriði. Stjörnunni bárust góðar gjafir af þessu tilefni, meðal annars veglegur styrkur frá Skaftárhreppi til tækja- og búnaðarkaupa.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr afmælisveislunni.

Stjórn Björgunarsveitarinnar Stjörnunnar ásamt Emilíu Ýr Pálmarsdóttur. (F.v.) Fanney Ásgeirsdóttir ritari, Gestur Sigfússon meðstjórnandi, Pétur Davíð varaformaður, Pálmar Atli formaður og María Ösp gjaldkeri. Ljósmynd/Aðsend
Pétur Davíð og Pálmar Atli með Guðna Davíðsson úr Björgunarsveitinni Kyndli á Kirkjubæjarklaustri á milli sín. Ljósmynd/Aðsend
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kom í heimsókn og vakti það mikla lukku hjá háum og lágum að sjá þyrluna í návígi. Ljósmynd/Aðsend
Magnús Ragnarsson færði sveitinni blómvönd í tilefni dagsins frá lögreglunni á Suðurlandi. Ljósmynd/Aðsend
Nokkrir af meðlimum Björgunarsveitarinnar Stjörnunnar. Ljósmynd/Aðsend
Yngri kynslóðin og verðandi meðlimir sveitarinnar fluttu nokkur lög í tilefni dagsins undir stjórn Brians R. Haroldssonar. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHrafn ráðinn aðalþjálfari Judofélags Suðurlands