Vel heppnuð góðgerðarvika

Í liðinni viku var svokölluð góðgerðarvika í Fjölbrautaskóla Suðurlands en þá stóð nemendafélag skólans fyrir alls konar uppákomum sem allar höfðu það að markmiði að safna peningum fyrir stríðshrjáð börn í Sýrlandi í gegnum Unicef.

Skólinn var skreyttur hátt og lágt með blöðrum, boðið var upp á vöfflur, grínmyndbönd, pizzur seldar sem og candy floss. Happdrættismiðar voru til sölu að ógleymdum þeim möguleika að skora á nemendur eða kennara og leggja fé undir.

Vikunni var svo lokað með uppgjörshátíð á föstudag þar sem nemendur og kennarar öttu kappi í óhefðbundnum boltaíþróttum, framkvæmd áskorana kynnt, en þar var fremst meðal jafningja Kolbrún Dagmar Stefánsdóttir, en hún lét raka á sér höfuðið fyrir málstaðinn og söfnuðust 250.000 krónur út á þessa einu áskorun.

Ekki liggur fyrir í dag hversu miklu tókst að safna í heildina, en söfnunarféð verður afhent fulltrúum Unicef með viðhöfn fljótlega.

Fyrri greinÖruggt hjá Hamri í fyrsta leik
Næsta greinMá í Háholti reistur minnisvarði