Vel heppnaður fundur bæjar- og sveitarstjóra

Í síðustu viku héldu Rangárþing eystra og Rangárþing ytra sameiginlega fund bæjar- og sveitarstjóra en þetta er árlegur fundur þar sem stjórnendur sveitarfélaga, sem eru fjölmennari en 1.000 íbúar, koma saman.

Setning fundarins fór fram á Hótel Fljótshlíð. Nemendur Tónlistarskóla Rangæinga fluttu tvö tónlistaratriði og Rangárþingin tvö voru kynnt fyrir fundargestum. Guðmundur Ágúst Sæmundsson hélt erindi um íbúavef Rangárþings eystra og hugmyndina bak við vefinn og Birna Sigurðardóttir talaði um samfellustarfið í Hvolsskóla og innflytjendamál í sveitarfélaginu. Góðar umræður sköpuðust eftir bæði erindin og ljóst er að fundir sem þessir eru nauðsynlegir fyrir stjórnendur til að deila með sér hugmyndum og verkefnalausnum.

Hópurinn ferðaðist svo um Rangárþing eystra og ytra, kynnti sér starfsemi nokkurra stofnanna ásamt því að skoða menningar- og ferðaþjónustutengda staði eins og Skógasafn, Sögusetrið, Miðjuna á Hellu og Heklu handverkshús.

Fyrri greinBirkir og Hlynur spila með FSu
Næsta greinSlökkvistöðin verður áfram í Reykholti