„Veiðum stundum rjúpur í net“

Jólasveinunum var vel fagnað þegar þeir komu yfir Ölfusárbrú. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var frábær stemmning við Ölfusárbrú þegar jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli heilsuðu upp á börn og fullorðna á Selfossi í dag.

Sveinunum var vel fagnað þegar þeir renndu yfir brúnna á gamla Veaponinum frá Guðmundi Tyrfingssyni. Þeir stigu svo á stokk og sungu og trölluðu á meðan foreldrar þeirra og annað hyski fylgdist með af þaki Hótel Selfoss. 

Blaðamaður sunnlenska.is reyndi að fá Giljagaur í viðtal en karlinn ætlaði aldrei að skilja að viðtalið myndi birtast á netinu.

„Við erum ekki með neitt net í Ingólfsfjalli, það er ekki neinn fiskur þar. Það veiðist ekkert í net, það er búið að reyna það, ekki nema ein og ein rjúpa, við veiðum þær stundum í net,“ sagði Giljagaur og hann var ánægður með móttökurnar sem þeir bræður fengu í dag.

„Já, þetta er mjög flott, allir syngja hátt og snjallt. Við erum mjög spenntir fyrir næstu dögum, það eru allir búnir að vera voðalega þægir – nema sumir. Börnin eru alveg mögnuð hvað þau hlýða, það þarf ekki annað en að rétta þeim svona tölvuspil þá hlýða þau alveg. En já, við erum mjög spenntir,“ sagði Giljagaur áður en hann var rokinn.

Myndir: sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinKarfan lokaðist í lokin
Næsta greinHljómlistarfélagið heldur Sölvakvöld í 25. sinn