Veiðivötn yfir 20.000 fiska múrinn

Veiðin í Veiðivötnum er nú komin yfir 20.000 fiska. Í síðustu viku veiddust 1.389 fiskar, mest urriðar og heildarveiðin er 20.027 fiskar.

Veiði á bleikju hefur dottið niður síðustu vikurnar, bæði vegna þess að bleikjan er tregari til að taka síðsumars og eins sjást varla veiðimenn í bleikjuvötnunum.

Flestir veiðimenn standa þessa dagana í Litlasjó, Grænavatni og Stóra- Fossvatni og reyna við stórfiskana. Mest veiddist í Litlasjó í 9. viku. Þar veiddust 527 fiskar og eru 5.780 fiskar komir þar á land í sumar. Mjög vel veiddist einnig í Stóra Fossvatni, 351 fiskur. Þar hafa veiðst 2.403 fiskar í sumar sem verður að teljast frábært.

Hæst meðalþyngd er áfram í Ónefndavatni og Grænavatni (3,14-3,57 pd) en meðalþyngd í Litlasjó er 2,8 pd.

Fyrri greinNýjungar í Álfa- og tröllasafninu
Næsta greinRíkið áfrýjar í Sólheimamáli