Veiðiréttur í Fossá boðinn út aftur

Samningur Skeiða- og Gnúpverjahrepps við Veiðifélagið Hreggnasa ehf. um veiði í Fossá og Rauðá er fallinn úr gildi vegna vanefnda.

Að sögn Björgvins Skafta Björgvinssonar, oddvita, hefur félagið ekki staðið skil á greiðslum til sveitarfélagsins.

Hreggnasi bauð hæst í veiðiréttinn eftir útboð í byrjun árs 2013. Rétturinn var leigður til fjögurra ára og hljóðaði tilboð Hreggnasa upp á 8,5 milljónir króna fyrir árin fjögur. Það var nærri því sexfalt hærra verð en greitt var fyrir veiðiréttinn á útboðstímabilinu á undan.

Sveitarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum að bjóða veiðina út að nýju og var sveitarstjóra falið að annast útboðið.

Hreggnasi seldi veiðileyfi í Fossá í fyrrasumar og gaf svæðið rúmlega 170 laxa á tvær stangir.

Fyrri greinJólatrjám safnað í Árborg
Næsta greinMeð yngstu bændunum í Dölunum