Veiði- og nytjarétthafar áhyggjufullir vegna Miðhálendis-þjóðgarðs

Sveitarstjórn Rangárþings ytra tekur undir áhyggjur fjallskiladeildar Landmannaafréttar um að gengið verði á réttindi nytjaréttarhafa með stofnun Miðhálendisþjóðgarðs.

Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var samhljóða á síðasta fundi sveitarstjórnar.

„Þeim áhyggjum þarf að eyða nú þegar enda er það yfirlýst stefna stjórnvalda að komi til stofnunar miðhálendisþjóðgarðs þá sé það gert m.a. með það að höfuðmarkmiði að efla byggðaþróun og atvinnulíf. Verði stofnun miðhálendisþjóðgarðs hins vegar til þess að skerða fyrrgreind réttindi þá er um afturför að ræða og þá betur ekki af stað farið,“ segir ennfremur í bókuninni.

FYrir fundi sveitarstjórnar lá fundargerð fjallskilanefndar Landmannafréttar og með henni fylgdi yfirlýsing þar sem lýst er áhyggjum af rétti íbúa sem eiga veiði- og nytjarétt á Landmannaafrétti vegna fyrirhugðarar stofnunar Miðhálendisþjóðgarðs.

Sveitarstjóra var falið að koma þessum skilaboðum á framfæri við nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Fyrri greinHyggjast friðlýsa Gjána
Næsta greinLeikfélag Selfoss æfir fjölskyldusýningu