Veiðist vel á Síldarplaninu

Í sjöundu veiðivikunni í Veiðivötnum komu 1.270 fiskar á land, 607 urriðar og 663 bleikjur. Nokkuð hefur dregið úr veiði á bleikju frá því sem var en fleiri og stærri urriðar fengust í vikunni en vikurnar á undan.

Nokkrir 9,0 punda urriðar komu úr Litlasjó í vikunni og eru það jafnframt stærstu fiskarnir úr Litlasjó það sem af er sumri. Athygli vakti hvað Litlasjávarfiskarnir voru vel haldnir, holdafarið álíka og í Grænavatni. Greinilega nóg að éta.

Í urriðavötnunum veiddist mest í Litlasjó, 205 fiskar en í Nýjavatni veiddust 272 bleikjur í vikunni. Í þriðja sæti var Stóra Fossvatn með 138 fiska, en þar var opnað fyrir veiði með spún og beitu á Síldarplaninu 1. ágúst eins og undanfarin ár. Þá veiðist að jafnaði vel á Síldarplaninu.

Aðeins 10 fiskar fengust úr Grænavatni í vikunni þrátt fyrir mikla sókn. Þetta voru allt stórir fiskar. Þyngsti fiskur sumarsins er 14,0 punda urriði úr Grænavatni. Þar er einnig mesta meðalþyngdin 5,65 pd.

Alls eru komnir 14.119 fiskar á land í Veiðivötnum á þessu sumri að því er fram kemur á heimasíðu Veiðivatna.

Fyrri greinOf heitt vatn rann í pottinn
Næsta grein„Íslendingar fást ekki í þessi störf“