Veiðiréttartekjur til vísindarannsókna

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að efla rannsóknir á urriðastofninum í Þingvallavatni með því að láta allar tekjur fyrirtækisins af veiðirétti í vatninu renna til slíkra rannsókna.

Tekjurnar nema nú tæpum tveimur milljónum króna á ári.

Orkuveitan hefur staðið að margvíslegum rannsóknum á lífríki Þingvallavatns og vöktun þess einkum eftir að heitavatnsframleiðsla hófst á Nesjavöllum árið 1990. Rannsóknirnar hafa einkum beinst að áhrifum jarðhitanýtingarinnar á vistkerfi vatnsins.

Nú um nokkurra ára skeið hafa nokkrir hagsmunaaðilar haft með sér formlegt samstarf um vöktun vatnsins. Hita og þunga samstarfsins bera Orkuveitan og Landsvirkjun, sem rekur vatnsaflsvirkjanir í Soginu. Aðild Umhverfisstofnunar og Þjóðgarðsins á Þingvöllum að samstarfinu er einnig afar mikilvæg, segir í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Vísindafólk á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs hefur átt drýgstan þátt í rannsóknunum sjálfum síðustu ár en einnig Matvís auk sjálfstætt starfandi vísindafólks. Rannsóknirnar hafa varpað skýrara ljósi á ýmsa áhrifaþætti lífríkisins í vatninu, náttúrulegra breytinga og breytinga af mannavöldum.

Þegar keyptar voru jarðir í Grafningi til jarðhitanýtingar fylgdi þeim veiðiréttur í vatninu. Eftir að auglýst var eftir tilboðum í veiðiréttinn og hann leigður hæstbjóðanda jukust tekjur Orkuveitunnar af honum verulega og nema nú tæpum tveimur milljónum króna á ári. Markmið þessa var ekki síður að bæta umgengni um veiðistofnana í vatninu og veiðistaðina við það, en henni var ábótavant.

Nú hefur verið ákveðið að þessar tekjur renni óskiptar til frekari rannsókna. Lætur nærri að framlag Orkuveitunnar til þeirra tvöfaldist við þetta. Fénu verður ráðstafað að höfðu samráði við samstarfsaðila um vöktun Þingvallavatns en hugur stjórnar Orkuveitunnar stendur til þess það muni einkum nýtast til frekari rannsókna á hinum merka urriðastofni í vatninu, sem þykir einstakur.