Veiðin að glæðast í Litlasjó

Veiði í Veiðivötnum fór rólega af stað og aðeins 3.075 fiskar komu á land í fyrstu vikunni. Í annarri viku kom 701 fiskur á land í Litlasjó og 2.563 alls í vötnunum, sem er meira en á sama tíma í fyrra.

Áfram er góð veiði í Stóra Fossvatni, þar kom 231 fiskur á land. Sömuleiðis veiddist vel í Skyggnisvatni, Langavatni, Grænavatni og í Hraunvötnum. Meðalþyngdin í aflanum er mjög góð, rúmlega tvö pund.

Mjög stórir fiskar hafa veiðst í Grænavatni það sem af er sumri og meðalþyngdin þar 4.2 pund. Stærsti fiskurinn það sem af er veiddist á flugu í Grænavatni um helgina. Hann vóg 12,8 pund.