Veiðiár þornaðar upp í Landbroti

Vatnsþurrð eftir Skaftárhlaup síðasta árs hefur valdið því að fengsælar sjóbirtingsár í Landbroti hafa þornað upp. Íbúar vilja veita vatni á Eldhraun til að auka við grunnvatnsstöðu, en Orkustofnun er á móti því.

Oddviti Skaftárhrepps segir ljóst að tjón vegna vatnsþurrðarinnar sé ógurlegt.

RÚV greinir frá þessu.

Grenlækur, Tungulækur, Sýrlækur og Jónskvísl eru meðal þeirra áa og lækja í Landbroti sem hafa látið mikið á sjá eftir Skaftárhlaup síðasta árs. Árnar renna allar undan Eldhrauni og Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, segir að í flóðinu í fyrra hafi áin hafi borið með sér aur sem þétti hraunið, en einnig hafi garðar sem áður veittu vatni á hraunið skolast burt í fyrri flóðum: „Og ef að Orkustofnun nær sínu fram að loka öllu rennsli út á hraunið þá lækkar í raun vatnsyfirborðið, grunnvatnsstaða í Landbroti þó nokkuð mikið og lækir þorna upp,“ segir Eva Björk í samtali við RÚV.

Íbúar vilja veita vatni út á hraunið til að styrkja grunnvatnsstöðuna en þann 2. maí ítrekaði Orkustofnun viðvörun sína frá 27. apríl um að vatnaveitingarnar, að þær séu leyfisskyld framkvæmd.

Eva Björk segir óvissu um áhrif grunnvatnsstöðunnar á neysluvatn en breytingar á veiðiám séu ljósar: „Grenlækur er var ein fengsælasta sjóbirtingsá landsins og í dag er hún ekki svipur hjá sjón. Það tekur mörg ár, ef við fáum vatn yfirhöfuð, þá tekur mörg ár að ná upp fiskigengd á ný svo tjónið er ógurlegt.“

Frétt RÚV

Fyrri greinGrýlupottahlaup 3/2016 – Úrslit
Næsta greinÁrni Steinn og Einar Sverris heim í Selfoss