Veiði hafin í Ölfusá

Fyrstu Ölfusárlaxarnir þetta sumarið eru komnir á land en veiði hófst í ánni í morgun.

Það var Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, sem opnaði ána með fyrsta kastinu klukkan átta í morgun.

Rúmum fimmtíu mínútum síðar landaði Gunnar Örn Jónsson, fulltrúi sýslumanns á Selfossi, fyrsta laxinum á miðsvæðinu. Það var 14 punda fiskur sem tók rauða Francis.

Um kl. 10:30 setti Bogi Karlsson, úrsmiður, svo í 10 punda hrygnu í Víkinni en sú beit á maðk.

Að sögn Steindórs Pálssonar, formanns Stangaveiðifélags Selfoss, er þetta góð byrjun en menn hafi iðulega komið heim með öngulinn í rassinum eftir fyrstu dagana í ánni. Fyrstu stóru göngurnar komi ekki í ánna fyrr en undir mánaðarmót.

Á síðasta ári veiddust 436 laxar á ánni og segir Steindór að leita þurfi langt aftur til að finna sambærilegar tölur. Menn vonist eftir að bæta árangurinn í sumar og jafnvel rjúfa 500 laxa múrinn.