Vegurinn orðinn hvítur og fjólublár

Í gær var eldvarnaeftirlitsmaður frá Brunavörnum Árnessýslu á leið úr eldvarnaskoðun í uppsveitum Árnessýslu þegar hann ók fram á mikið magn af málningu sem farið hafði niður á veginn fyrir ofan Þrastalund í Þrastarskógi.

Talsvert magn af málningu á biskupstungnabraut við Þrastalund 23.3.2017

Við nánari skoðun kom í ljós að fjórar fötur með samtals 40 lítrum af málningu höfðu farið af bíl sem átti þarna leið um og vegurinn því orðin hvítur og fjólublár á nokkuð stórum kafla. Margir bílar höfðu ekið í málninguna og dreift henni um nokkuð langan vegkafla.

Slökkviliðsmenn frá Selfosseiningu Brunavarna Árnessýslu fóru á vettvang til þess að hreinsa veginn en ekki er ólíklegt að talsverða málningu sé að finna á þeim bifreiðum sem keyrðu yfir flekkinn fyrir hreinsun. Hreinsunarstarfið tók um tvær klukkustundir og urðu nokkrar tafir á umferð meðan á því stóð.