Vegurinn opnaður í vikunni

Við Stóru-Laxá. Ljósmynd/Vegagerðin

Vonir standa til að hægt verði að opna Skeiða- og Hrunamannavegi við Stóru-Laxá á morgun, þriðjudag. Vegurinn var rofinn þann 19. janúar til að forða nýju brúnni sem er í smíðum frá flóðahættu.

Sú aðgerð heppnaðist vel og var stórtjóni forðað þegar áin ruddi sig tveimur dögum síðar. Í gær kom svo annar flóðatoppur í ána og nú er beðið eftir því að sjatni í ánni og er verktakinn á staðnum, tilbúinn með tæki til að fylla upp í veginn.

Ef allt gengur eftir hefst sú vinna á morgun en í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að í fyrstu verði umferð um veginn takmörkuð en vonast er til að hægt verði að hleypa fullri umferð á hann í lok vikunnar.

Á fundi sínum í síðustu viku skoraði sveitarstjórn Hrunamannahrepps á Vegagerðina að opna fyrir umferð þegar í stað, þar sem lokun vegarins hafi haft gríðarleg áhrif á samfélagið allt í Uppsveitum Árnessýslu.

Fyrri greinAppelsínugul viðvörun: Ekkert ferðaveður í fyrramálið
Næsta greinSklopan á miðjuna hjá Selfyssingum