Vegurinn lokaður fram á kvöld – 300 manns unnu við útkallið

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi liggur fyrir töluverð hreinsunarvinna á vettvangi slyssins í Eldhrauni auk þess sem kölluð hafa verið til stórvirk tæki til að hífa rútuna af vettvangi.

Því er ljóst að þjóðvegur 1 verður að minnsta kosti lokaður til klukkan 19:00.

Um 300 manns hafa unnið að þessu stóra verkefni, þar af um 180 sem fóru á vettvang eða áleiðis þangað.

Hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð Heilbrigðisstofunar Suðurlands á Kirkjubæjarklaustri var fyrst á vettvang slyssins í morgun. Læknir og fjórir hjúkrunarfræðingar frá HSU í Hornafirði komu svo til aðstoðar og voru í fjöldahjálparstöðinni sem opnuð var á Kirkjubæjarklaustri. Að auki fóru tveir læknar og fjórir hjúkrunarfræðingar frá HSU á Selfossi á Klaustur til að hlúa að minna slösuðum í fjöldahjálparstöðinni.

Yfirmaður sjúkraflutinga í Heilbrigðisumdæmi Suðurlands, fór með þyrlu sem þurfti að taka eldsneyti í Vestmannaeyjum, og stýrði aðgerðum fyrir slasaða á vettvangi í samvinnu við lögreglu.

Fjöldi lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraflutingamanna og annarra heilbrigðisstafsmanna hafa verið kallaðir út hjá HSU og eru þau að sinna slösuðum eða bíða átekta að taka á móti þeim á sjúkrahúsinu á Selfossi. Á HSU á Selfossi er þess beðið nú að taka á móti minna slösuðum, til myndatöku og frekari rannsókna. Þar er hægt að taka á móti öllum sjúklingum með brot og minni áverka á Selfossi. Svo virðist miðað við núverandi stöðu að 32 séu með minniháttar áverka og ekki mikið slasaðir. Þeir verða fluttir til frekari skoðunar til Selfoss.

Að sögn Herdísar Gunnarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hefur skipulag aðgerða hjá aðgerðastjórn almannavarna á Selfossi gengið mjög vel í samvinnu við samhæfingastöð Almannavarna í Skógarhlíð.

UPPFÆRT KL. 21:18: Vegurinn hefur verið opnaður á nýjan leik.

TENGDAR FRÉTTIR:
Alvarlegt rútuslys vestan við Klaustur
Einn látinn og sjö alvarlega slasaðir
Tólf fluttir með þyrlum á sjúkrahús

Fyrri greinTólf fluttir með þyrlum á sjúkrahús
Næsta greinÖll loftför Gæslunnar kölluð út – fallhlífastökkvarar um borð í TF-SIF