Veglokun í friðlandinu virt að vettugi

Þrátt fyrir að lokað sé fyrir alla vélknúna umferð um Friðland að Fjallabaki hafa svæðislandverði á Suðurlandi borist spurnir af umferð ökutækja um svæðið.

Ingibjörg Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og svæðalandvörður á Suðurlandi, segir sárt til þess að vita að menn vanvirði þessa lokun og selji jafnvel ferðir inn á svæðið. Slíkar ferðir leiði iðulega til aksturs utan vega sem sé skýrt brot á náttúruverndarlögum.

„Ég hef fengið ábendingar úr öllum áttum að menn séu á ferðinni þarna innfrá. En það er auðvitað með þetta eins og annað að það er einhver lítil prósenta sem er að skemma fyrir hópnum, “ sagði Ingibjörg í samtali við sunnlenska.is.

„Ég frétti af stórum bíl á svæðinu, og eins mönnum sem eru að selja ferðir inn á svæðið um þessar mundir þrátt fyrir lokanir,“ segir Ingibjörg sem hefur tilkynnt lögreglunni á Hvolsvelli um hvers kyns er.

„Mér þykir vænt um það að fólk láti mig vita af þessu. Það er almenn samstaða um að standa vörð um svæðið, þetta er svæði sem menn ákváðu árið 1979 að taka frá sem sparistað,“ segir Ingibjörg en starf hennar sem svæðislandvörður í heilsárs starfi var sett á laggirnar fyrir ári síðan.

„Utanumhaldið hefur verið aukið og við erum að stíga ákveðnar niður í þessum málum núna. Það hefur verið unnið gott starf þarna yfir sumartímann en það er jaðartíminn á vorin og haustin sem er mjög viðkvæmur. Náttúran þarna er afar viðkvæm, ekki síst í leysingatíð.“

Ingibjörg segir að gróðurskemmdir á svæðinu sé í sumum tilfellum hægt að laga og ökumenn hafi jafnvel lagst á hrífusköftin til að bjarga því sem bjargað verður, en það eigi ekki alltaf við. Landverðir leggi oft gríðarmikla vinnu í að laga för eftir utanvegaakstur.

Hún segir að líklega verði opnað fyrir umferð inn á svæðið um miðjan júní, enn sé talsverður snjór á leiðinni en lítið frost í jörðu og því ætti bleytan í jarðveginum að ganga hratt niður.

Fyrri greinAri Gunn ráðinn þjálfari Hamars
Næsta greinSá ekki skiltin í fallegu útsýni