Veglegar gjafir kvenfélaganna til HSU

Fulltrúar frá Sambandi sunnlenskra kvenna og Kvenfélagi Stokkseyrar komu í heimsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands síðastliðinn mánudag til þess að afhenda formlega gjafir til stofnunarinnar.

Kvenfélag Stokkseyrar færði fyrr á þessu ári peningagjöf til lyflæknisdeildarinnar á Selfossi og var gjöfin nýtt til kaupa á lyfjadælu að verðmæti 176.673 krónur. Lyfjadælan hefur verið í stöðugri notkun síðan hún var afhent sem sýnir þörfina og hefur því komið sér einstaklega vel.

Samband Sunnlenskra kvenna færði gjafir til HSU að heildarverðmæti kr. 2.289.020 á árinu. Um er að ræða meðferðarstól, lífsmarkamæli, hjartalínurita og skoðunarbekk. Þessar gjafir veita starfsmönnum mikla öryggiskennd og styrk í sínum störfum og meðferðastóllinn og skoðunarbekkurinn eru til mikilla þæginda fyrir skjólstæðinga HSU.

Elínborg Sigurðardóttir formaður SSK færði stofnuninni glerengil að gjöf, en hann hannaður af glerlistakonunni Dagnýju Magnúsdóttur og er seldur af SSK til styrktar HSU. Einnig las hún upp ályktun sem félagið sendi öllum þingmönnum Suðurkjördæmis, þar sem skorað er á þá að fylgja fast eftir kröfum um auknar fjárveitingar til heilbrigðismála á Suðurlandi.

Þann 13. desember sl. afhenti Kvenfélag Þorlákshafnar einnig gjöf til Heilsugæslunnar í Þorlákshöfn. Um er að ræða hjartastuðtæki og hjartalínurita að verðmæti 549.870 kr. Gjöfin kemur sér afar vel fyrir heilsugæsluna í Þorlákshöfn og veitir íbúum Þorlákshafnar og starfsfólki mikið öryggi í daglegu lífi og auðveldar að geta brugðist skjótt við.

Öllum þessu félögum þakkar Heilbrigðisstofnun Suðurlands innilega fyrir og komst forstjóri svo að orði að án þessara gjafa allra, nú og fyrr, væri stofnun illa stödd í tækjum, því nægilegt fjármagn til tækjakaupa hefur skort í gengum tíðina. En HSU hefur notið einstakrar gjafmildar Kvenfélaga á svæðinu sem verður seint full þakkað.

Fyrri greinHækka launaliðinn talsvert
Næsta greinÖldugangur upp að bílastæði