
Í gær fékk Heilbrigðisstofnun Suðurlands afhenta gjöf sem Kvenfélagasamband Íslands og öll kvenfélög í landinu söfnuðu fyrir árið 2020 í tilefni af 90 ára afmæli Kvenfélagssambandsins.
Gjöfin er hugbúnaður sem heitir Milou og er rafrænt kerfi fyrir skráningu og vistun fósturhjartsláttarrita. Milou gagnast til að fylgjast með hjartslætti fósturs og er mikið öryggi fyrir þungaðar konur á meðgöngu og í fæðingu.
Þessi hugbúnaður hefur verið settur upp á öllum fæðingarstöðum á landinu og eru þá sérfræðingar, sem vinna við meðgöngur og fæðingar á landinu, tengdir við hann. Þar geta þeir séð í rauntíma hvað er að gerast og gefið álit og með því oft komið í veg fyrir að verðandi mæður séu sendar um langan veg til nánari skoðunar. Þetta eykur öryggi til muna auk þess sem þetta getur létt konum og fjölskyldum heilmikil ferðalög á viðkvæmum tímum. Mikið öryggisatriði er svo að gögnin vistast rafrænt í sjúkraskrá móður. Ritin eru flokkuð með kerfisbundnum hætti og allar athugasemdir og kvittanir koma inn á ritið með rafrænum hætti.

Öll gögn á öruggum og aðgengilegum stað
Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir á HSU, hefur verið tengiliður við alla fæðingarstaðina á landinu en áður hefur hugbúnaðurinn verið settur upp á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, í Keflavík, Neskaupstað, Vestmannaeyjum, á Landspítalanum og að lokum núna á Selfossi.
„Nú getum við hér á Selfossi fengið álit á fósturhjartsláttarriti á hærra þjónustustigi ef við teljum þörf á því. Einnig, ef við erum einar á vakt þá getum við hringt ljósmæður á öðrum fæðingardeildum og ráðfært okkur við þær,“ segir Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir á HSU í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta breytir líka algjörlega vistun sjúkraskrárgagnanna. Nú vistast þau á löglegan hátt og eru alltaf til á öruggum stað. Stundum þarf að skoða fæðingar aftur síðar og stundum eru einhver mál í gangi sem þarf að skoða og þá er alltaf hægt að ná í þessi gögn og þau vistast bara með móðurskránni. Það er gríðarlegt öryggisatriði.“

Skiptir máli að geta fengið álit
Björk segir að starfsánægja og vellíðan ljósmæðra muni einnig aukast með tilkomu Milou. „Það skiptir máli að geta fengið álit, að standa ekki bara ein einhvers staðar og þurfa svo að vera sett í þær aðstæður að senda kannski viðkvæmar persónuupplýsingar á milli á óöruggan hátt. Núna getur þú með einu símtali hringt á hærra þjónustustig og fengið álit sem er gríðarlega mikilvægt.“
Björk bætir við að það sé gott að þurfa ekki að senda konur að óþörfu til Reykjavíkur, sem eru ef til vill í þannig ástandi að þær eiga erfitt með að ferðast. Hún á von á því að Milou eigi eftir að koma í veg fyrir margar óþarfa ferðir.

„Við erum mjög þakklát Kvenfélagasambandinu og kvenfélögunum um allt land að hafa keyrt þetta verkefni áfram. Það voru ýmsar hindranir á leiðinni, vegna persónuverndar, tæknivandamála og kórónuveirufaraldursins. Það er svo magnað hvað þessar konur sem stóðu að þessu eru sterkar. Þær voru einhuga að klára þetta verkefni og gefast ekki upp,“ segir Björk að lokum.

