Vegleg gjöf til heimaspítala HSU

Félagar í Lionsklúbbnum Emblu á vinkonukvöldi í Karlakórsheimilinu á Selfossi, ásamt Önnu Margréti Magnúsdóttur og Margréti Björk Ólafsdóttur frá HSU. Ljósmynd/Aðsend

Lionsklúbburinn Embla á Selfossi færði heimaspítala Heilbrigðisstofnunar Suðurlands veglega gjöf við hátíðlega athöfn síðasta föstudagskvöld, á vinkonukvöldi klúbbsins.

Um er að ræða Vacsan Air CL ómskoðunartæki auk spjaldtölvu sem tengist við síma en verðmæti gjafarinnar er rúmlega 811 þúsund krónur.

Hjördís Inga Sigurðardóttir, varformaður styrktarsjóðs Emblu, afhenti gjöfina og veittu þær Anna Margrét Magnúsdóttir, aðstoðarhjúkrunarstjóri og Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar, gjöfinni viðtöku. Anna og Margrét fóru nokkrum orðum um tilgang tækisins og starf heimaspítala HSU, sem þjónustar skjólstæðinga í heimahúsi.

„Því ber að fagna að fólk geti dvalið lengur heima og fengið þjónustuna til sín. Við Emblur þökkum gestum okkar fyrir komuna á vinkonukvöldið, svo og fyrirtækjum fyrir þeirra framlag, en þetta er aðal fjáröflunarverkefni klúbbsins. Ágóðinn af kvöldinu rennur allur í styrktarsjóð sem gerir okkur kleift að styrkja svona verkefni í nærsamfélaginu,“ segir í tilkynningu frá styrktarsjóði Emblu.

Anna Margrét Magnúsdóttir og Margrét Björk Ólafsdóttir tóku við gjöfinni fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHelgi Hafsteinn skipaður í Krabbameinsráð
Næsta greinOkkar Hveragerði býður fram í vor