Vegleg gjöf Halldórusystra til ljósmæðravaktar HSU

Frá afhendingu gjafarinnar. Ljósmynd/oddfellow.is

Í tilefni af eins árs afmæli Rebekkustúkunnar Halldóru gáfu Halldórusystur ljósmæðravakt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 600 þúsund krónur til kaupa á fæðingarlaug ásamt öllum fylgibúnaði.

Rebekkustúka nr. 20, Halldóra var stofnuð 4. desember 2021 af 40 konum sem koma víðsvegar af Suðurlandi og er fjórða stúkan innan Oddfellowreglunnar sem starfar á Selfossi.

Oddfellow stúkurnar á Selfossi hafa staðið þétt að baki HSU í gengum árin og gáfu til að mynda allar innréttingar og vinnu við standsetningu á kapellu spítalans á sínum tíma, auk fjölda annarra gjafa á liðnum árum. Gjöfin sem varð nú fyrir valinu er Birth Pool in a Box fæðingarlaug sem er flytjanleg á milli staða.

Með gjöfinni fylgir sú ósk Halldórusystra að öll aðstaða og búnaður ljósmæðravaktarinnar á HSU sé fyrsta flokks og að þjónustan verði styrkt og efld eins og kostur er.

Fyrri greinStórbruni á Hörgslandi
Næsta greinÞrettándagleði á Selfossi á föstudaginn