Vegkantur gaf sig undan rútu

Í gær klukkan 15:43 barst Lögreglunni á Suðurlandi beiðni um aðstoð vegna rútubifreiðar sem hafði farið að hluta útaf Þingvallavegi, svokölluðum Ólafsvegi, í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Vegkanturinn mun hafa gefið sig, eins og sjá má á mynd, en ökumanninum tókst að stöðva bifreiðina og þannig komið í veg fyrir að hún færi á hliðina. Í bifreiðinni voru 45 manns og ekki var hægt að opna hurð til að hleypa fólkinu út.

Nokkur viðbúnaður varð vegna þessa atviks en engin slasaðist og allir voru í góðu jafnvægi.

Tæpri klukkustund eftir að óhappið varð tókst að opna hurðina á bifreiðinni og voru allir komnir út skömmu síðar.

Lögreglan hefur vaxandi áhyggur af aukinni umferð stórra fólksbifreiða um þennan vegarkafla í þjóðgarðinum sem virðist mjög veikburða.