Vegirnir illfærir og ekki fólki bjóðandi

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps í mars var lagt fram erindi og undirskriftarlisti frá íbúum Flóahrepps við Villingaholtsveg þar sem gerðar eru athugasemdir við forgangsröðun Vegagerðarinnar í endurbótum á veginum.

Í sumar verða gerðar endurbætur á Villingaholtsvegi frá Gaulverjabæjarvegi í átt að Ragnheiðarstöðum þar sem einungis er föst búseta á einum bæ.

Íbúarnir benda á að lengi hafi staðið til að hefja endurbætur á Villingaholtsvegi frá Þjórsárveri niður fyrir Ferjunes. Á þeim vegkafla búa nú um 60 manns eða nálægt 10% íbúa sveitarfélagsins. Undirskriftalistinn var sendur Vegagerðinni og þingmönnum kjördæmisins.

Sveitarstjórn tók undir mótmæli íbúa við ofangreindri forgangsröðun á vegframkvæmdum og hvatti Vegagerðina til að leggja einnig bundið slitlag á
Villingaholtsveginn frá Þjórsárveri að Ragnheiðarstöðum. Auk þess þurfi að stuðla að því að malarvegir almennt í Flóahreppi verði byggðir upp og
sett á þá bundið slitlag.

„Vegirnir eru víða niðurgrafnir, holóttir og illfærir. Allt viðhald er í lágmarki og fólki hreinlega ekki fólki bjóðandi að aka um þessa vegi,“ segir í pistli Margrétar Sigurðardóttur, sveitarstjóra, í nýjasta tölublaði Áveitunnar.

Fyrri greinFlóahreppur selur Yrpuholt
Næsta greinGuðrún ráðin verkefnastjóri