Vegagerðin vék frá eigin skilmálum

Vegagerð. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Vega­gerðar­inn­ar að semja við GT verk­taka ehf. og Borg­ar­virki ehf. um breikk­un og end­ur­gerð Reykja­veg­ar í Bisk­upstung­um en tilboð í verkið voru opnuð í janúar.

Borgarvirki og GT verktakar áttu lægsta tilboðið í verkið og þar á eftir kom Þjótandi ehf. Vegagerðin tilkynnti lægstbjóðendum að samið yrði við Þjótanda þar sem Borgarvirki og GT verktakar uppfylltu ekki kröfur útboðsins hvað varðar fjárhagsstöðu. Fyrirtækin gerðu athugasemd og fengu frest til þess að skila inn frekari gögnum.

Tilboði Borgarvirkis og GT verktaka var aftur hafnað þann 31. janúar þar sem viðbótargögnin voru ófullnægjandi en fyrirtækin fengu þá enn á ný tækifæri til þess að leggja fram frekari gögn og ákvað Vegagerðin í kjölfarið að ganga til samninga við þau.

Þjótandi ehf kærði ákvörðunina en fyrirtækið taldi að Vegagerðin hefði raskað jafn­ræði bjóðenda með því að víkja frá skil­mál­um útboðsins. Kærunefndin úr­sk­urðaði Þjót­anda í vil og felldi ákvörðun Vega­gerðar­inn­ar úr gildi auk þess sem henni er gert að greiða Þjótanda 600 þúsund krón­ur vegna máls­kostnaðar.

Í úr­sk­urðinum segir að fyrir liggi að skil­mál­ar hins kærða útboðs voru skýr­ir um að vísa bæri frá til­boði hefði fyr­ir­tæki sem tengd­ist stjórn­end­um og helstu eig­end­um bjóðenda orðið gjaldþrota síðastliðin fimm ár.

Endurgerð Reykjavegar er stórt verk sem vinna á á tveimur árum en tilboð Þjótanda í verkið hljóðaði upp á rúmar 575,2 milljónir króna.

Fyrri greinNeyðarkerra á Klaustri
Næsta greinJómfrúrferð Herjólfs IV í Landeyjahöfn