Vegagerðin tekur við rekstri almenningssamgangna

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vegagerðin mun taka yfir rekstur almenningssamgangna um næstu áramót þegar rekstrarsamningar sem Vegagerðin gerði við landshlutasamtök fyrir árið 2019 renna út.

Málið var rætt á síðasta stjórnarfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga en Vegagerðin tekur yfir rekstur strætisvagna á Suðurlandi fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Í bókun stjórnar SASS er af því tilefni áréttað mikilvægi þess að heimamenn hafi aðkomu að rekstri almenningssamgangna vegna staðbundinnar þekkingar á þörf og leiðarvali. Stjórn SASS leggur ríka áherslu á að við breytinguna búi sunnlenskt samfélaga að minnsta kosti við sama þjónustustig og verið hefur og að áframhaldandi farsælt samstarf ríki um rekstur almenningssamgangna í landinu.

Á síðasta ári tapaði SASS 36 milljónum króna á rekstri almenningssamgangna en til stóð að Vegagerðin greiddi tapreksturinn upp. Skuldin var óuppgerð þegar drög að ársreikningi samtakanna árið 2018 voru kynnt í júní síðastliðnum.

Fyrri grein„Halló, halló, ferja!“
Næsta greinÚtgáfuhóf í Skógum