Vegagerðin greiðir upp tapið á rekstri almenningssamgangna

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vegagerðin mun greiða 36 milljón króna tap sem varð af rekstri almenningssamgangna á Suðurlandi árið 2018. Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga stefnir að hallalausum rekstri árið 2019.

Í viðræðum um nýjan samning lagði SASS ríka áherslu á að ríkið myndi gera upp tapið af rekstrinum til loka  árs 2018 og að staðinn yrði vörður um leiðakerfið á Suðurlandi. Reynt verður að leita allra annarra leiða en að fækka ferðum til að reksturinn á árinu 2019 verði hallalaus.

Á fundi stjórnar SASS á milli jóla og nýárs kom fram að Vegagerðin hafi staðfest að uppgjör fari fram á uppsöfnuðu tapi við reksturinn.

Eva Björk Harðardóttir, formaður stjórnar SASS, sagði í samtali við sunnlenska.is að tapið á síðasta ári hafi verið 36 milljónir króna. Nýi samningurinn nær einungis til ársins 2019 og á að nýta árið til þess að endurskipuleggja almenningssamgöngur á Suðurlandi.

Fækkað um tvær ferðir í uppsveitunum
Áætlanir SASS gera ráð fyrir hallalausum rekstri árið 2019 og að mestu óbreyttu þjónustustigi. Stjórn SASS samþykkti að fækka um tvær ferðir á viku á leið 73, Selfoss-Uppsveitir-Selfoss, það er kl. 18:00 á þriðjudögum og fimmtudögum, en farþegar hafa verið mjög fáir í þessum ferðum.

Stjórn SASS leggur ríka áherslu á að ef horfur eru á því að forsendur rekstrar standist ekki verði tafarlaust gripið til aðgerða til að rétta reksturinn af.

Á stjórnarfundinum milli jóla og nýárs var Bjarna Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SASS, falið að undirrita fyrirliggjandi samninga við annars vegar Vegagerðina og hins vegar Hópbíla og jafnframt að ganga frá samningi við Strætó.

Fyrri greinFSu áfram í Gettu betur
Næsta greinFimm Selfyssingar í 17 manna landsliðshóp á HM