Vegagerðin viðbúin að loka

Í kvöld og fram á aðfaranótt mánudags verða aðstæður á þjóðvegum landsins mjög erfiðar gangi veðurspá eftir.

Vegagerðin mun takmarka þjónustu sína um helgina þess vegna, og mega vegfarendur gera ráð fyrir að vegir lokist fyrirvaralaust og þjónustu verði hætt.

Vegagerðin hefur gefið út tímaramma fyrir hugsanlegar lokanir. Þar má gera ráð fyrir lokunum á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði frá kl. 6:00 á laugardagsmorgun til kl. 1:00 aðfaranótt mánudags.

Á Suðurlandsvegi frá Markarfljóti til Kirkjubæjarklausturs á föstudagskvöld kl. 23:00 til kl. 6:00 á laugardagsmorgun og aftur frá kl. 12:00 á hádegi á laugardag og fram til kl. 1:00 aðfaranótt mánudags.

Einnig eru miklar líkur á samgöngutruflunum á Reykjanesbraut milli kl. 15 og 18 á laugardag og frá Skaftafelli austur í Berufjörð frá miðnætti í kvöld og til klukkan 9:00 á laugardagsmorgun.

Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með tilkynningum um færð á heimasíðu Vegagerðarinnar og í síma 1777.

Fyrri greinStórt pennasafn til sýnis á Selfossi
Næsta greinGnúpverjar skelltu Vestra – Hamar tapaði