Vegagerðin segir lokanir fjallvega hafa sannað sig

„Breytt aðferðafræði Vegagerðarinnar við að loka fjallvegum vegna ófærðar og veðurs hefur margsannað sig. Aðferðafræðinni hefur verið beitt í nokkur ár og hefur bætt ástand sem annars stefndi í óefni.“

Þetta segir í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Sunnlendingar eru margir hverjir óhressir með tíðar lokanir á Hellisheiði og tjáði Eyþór H. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðis, sig um málið á mbl.is í dag. Eyþór segir að lokanirnar séu komnar úr böndunum og vegurinn sé langoftast fær vönum bílstjórum á vel útbúnum bílum.

Vegagerðin segir að þær breytingar sem orðið hafa á samsetningu vegfarenda t.d. vegna stóraukinnar vetrarferðamennsku kalli á breytt verklag við lokanir fjallvega.

„Lokanir hafa þó verið ítrekaðar að undanförnu, ekki vegna þess að þeim sé beitt í auknum mæli, heldur hefur veðrið kallað á lokanir. Óvenju mikið hefur verið um slæm veður undanfarnar vikur og nú þegar hefur þurft að grípa til lokana jafn oft og síðustu tvo vetur samanlegt,“ segir í frétt Vegagerðarinnar.

Þar kemur einnig fram að í skoðun sé hjá Vegagerðinni að innleiða skipulagðan fylgdarakstur með snjómoksturstækjum á ákveðnum leiðum þegar ekki er unnt að hafa frjálsa umferð. Slíkt fyrirkomulag hefur þegar verið reynt við nokkur tilfelli, en löng reynsla er af slíkri þjónustu í Noregi.

TENGDAR FRÉTTIR:
Hafnfirðingar loka Hellisheiði og Þrengslum

Fyrri greinStyrktu björgunarsveitirnar um samtals tvær milljónir króna
Næsta greinÓtrúlegt flautumark tryggði Selfyssingum sigurinn