Vegaframkvæmdir í Ölfusinu á lokametrunum

Nýr Suðurlandsvegur í Ölfusi. Mynd/Vegagerðin

Framkvæmdir við nýjan Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss eru á lokametrunum og vonast er til að hægt verði að hleypa umferð á þann kafla sem enn er eftir um miðjan maí.

„Væntingar eru um að hægt verði að malbika síðasta kaflann í kringum 20. apríl. Eins og staðan er núna er beðið eftir því að veðrið lagist. Um er að ræða kafla yfir Bakkárholtsá og brúna þar. Þegar því er lokið verður lagt yfirlag á tveimur stöðum, en það eru stuttir kaflar,“ segir Guðmundur Björnsson hjá verkfræðistofunni Hnit, í frétt á síðu Vegagerðarinnar.

Þegar búið er að malbika veginn þarf að jafna miðdeili og merkja veginn, setja upp umferðarmerki og ljúka öðrum frágangi. Að því loknu verður hægt að hleypa umferð á veginn, líklega um miðjan maí.

„Þegar búið verður að hleypa umferðinni á verður hægt að klára vinnu við tengingar á hinum nýja Ölfusvegi, sem liggur undir brúna við Kotströnd og tengja hann við núverandi Hringveg. Það er ekki hægt að gera það fyrr en umferðin er komin á nýja veginn,“ segir Guðmundur.

Hann segir framkvæmdir við Suðurlandsveg almennt hafa gengið mjög vel en þær eru nokkuð á undan áætlun. „Upphaflega var gert ráð fyrir að framkvæmdum lyki í lok september 2023 en útlit er fyrir að það verði í júní/júlí,“ segir hann.

Fyrri greinSigrún sýnir á Sólheimum
Næsta greinEitt af þessum ógleymanlegu 80’s lögum