„Veður er mikið til hugarfar“

Magnús Kjartan ásamt konu sinni Sigríði og börnunum í Vestmannaeyjum í kvöld. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þrátt fyrir gula veðurviðvörun hefur stríður straumur fólks verið til Vestmannaeyja allan í dag. Á Þjóðhátíð í Eyjum mun sunnlenska ballhljómsveitin Stuðlabandið koma fram alla dagana með Selfyssinginn Magnús Kjartan Eyjólfsson í fararbroddi. Stuðlabandið á einmitt þjóðhátíðarlagið í ár sem ber heitið Við eldana.

Sunnlenska.is sló á þráðinn til Magnúsar Kjartans þar sem hann var í þann mund að stíga á svið með Stuðlabandinu og frumflytja þjóðhátíðarlagið á þessari stærstu útihátíð landsins.

„Viðtökurnar við laginu hafa verið framar vonum. Við erum sérstaklega ánægðir með viðbrögð Eyjamanna við laginu, þar sem þetta er þeirra hefð og í grunninn þeirra hátíð sem þeir voru svo góðir að deila með þjóðinni,“ segir Magnús Kjartan kátur í bragði en þess má geta að hann mun einnig stýra brekkusögnum sunnudagskvöldið líkt og hann hefur gert síðan árið 2021.

„​​Annars er ég mjög vel stemmdur fyrir helginni. Við förum öll fjölskyldan til Eyja en hátíðin fékk nýtt líf í mínum huga þegar ég komst að því hvað þetta er falleg og skemmtileg fjölskylduhátíð.“

„Veður er mikið til hugarfar og það er lengi hægt að klæða af sér slæmt veður. Ég hvet annars alla til að skemmta sér fallega um helgina og látiði ykkur náungan varða. Það er allt í lagi að spyrja fólk hvort það sé ekki allt í lagi. Góða skemmtun!“ segir Magnús Kjartan og var þar með rokinn á brekkusviðið í Dalnum.

Fyrri greinFannst áður en björgunarsveitir mættu á vettvang
Næsta greinHvammsvirkjun – Skyldur ráðherra og réttur samfélagsins