Veðurguðirnir valda frestun

Tónleikum Dægurlagafélagsins sem halda átti í Tryggvaskála á Selfossi í kvöld hefur verið frestað vegna veðurs, en fólki hefur verið ráðlagt að fara ekki yfir Hellisheiði að nauðsynjalausu.

Þeir Einar Bárðar, Hreimur, Heimir og Ingó Veðurguð hafa því frestað tónleikunum „Sögum til næsta bæjar“ um eina viku og munu miðarnir í kvöld gilda sem forgangsmiðar á sunnudaginn eftir viku.

„Okkur þykir þetta miður en við viljum ekki að fólk leggi sig í óþarfa hættu í kvöld,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is. „Veðrið er ekki að fara að ganga niður um kvöldmat eins og spár gerðu ráð fyrir í dag, þannig að það er óhætt að segja að þetta sé allt veðurguðunum að kenna,“ bætti Einar við hlæjandi.

Fyrri greinVelferðar- og skólaþjónusta Árnesþings verður til um áramótin
Næsta grein37 þúsund fóru í sund