Vatnstjón í grunnskólanum í Þorlákshöfn

Eldur kom upp í grunnskólanum í Þorlákshöfn á þriðja tímanum í dag. Eldurinn var lítill og sjálfvirkt úðakerfi slökkti hann. Vatnstjón er nokkuð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kviknaði í pappír eða öðru efni sem lá upp við heitan leirbrennsluofn í myndmenntastofu.

„Það varð mikill hiti af þessu en lítill eldur. Úðakerfið fór af stað í stofunni og í kring en það voru engin börn í stofunni,“ sagði Halldór Sigurðsson, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is. „Stofan er á efri hæðinni en það voru börn á neðri hæðinni. Um leið og eldvarnarbjöllur hringdu þá var húsið rýmt og það gekk vel fyrir sig,“ segir Halldór.

Hreinsunarstarf stendur yfir og segir Halldór að skemmdir séu talsverðar útfrá vatni auk þess sem ofninn í myndmenntastofunni sé ónýtur.

Fyrri greinDrepstokkur um helgina
Næsta greinÁhrif gosösku á heilsufar