Vatnsskortur í Flóahreppi

Töluverð vandamál hafa komið upp í Flóahreppi í sumar vegna vatnsskorts. Starfsmenn tæknisviðs og verktakar vatnsveitu hafa unnið stöðugt að eftirliti og styrkingu veitukerfisins.

„Í sumum tilfellum hefur lélegur þrýstingur eða vatnsskortur stafað af sírennsli eða vatnssóun. Það er afleitt því engin kaldavatnsveita er hönnuð til þess að bera stanslaust rennsli allan sólarhringinn,“ segir Eydís Indriðadóttir, sveitarstjóri, í nýjasta tölublaði Áveitunnar. Hún hvetur íbúa og aðra notendur á köldu vatni í Flóahreppi til að taka tillit til þess.

Mikilvægt sé að fylgst sé vel með því ekki sé sírennsli í útihúsum eða beitarhólfum og starfsmenn vatnsveitu látnir vita strax af því ef svo er og ekki tekst að loka fyrir rennslið.

Ákveðið hefur verið að fá starfsmenn Rarik til þess að leggja þriggja fasa raflögn að dæluhúsi í Ruddakróki til þess að koma öflugri dælingu út á kerfið.

„Töluvert hefur einnig áunnist við lekaleit og viðeigandi úrbætur gerðar ásamt því að dæling hefur verið aukin að einstökum bæjum sem standa hátt,“ segir Eydís og bætir við að áfram verði unnið í því að auka flutningsgetu veitunnar.

Fyrri greinÆgir áfram í fallsæti
Næsta grein151 nemandi í ML í vetur