Vatnsrennsli undir meðallagi í sumar

Vatnsrennsli á Suðurlandi hefur verið undir meðallagi í sumar og vantar tæpa 5 metra á að Þórisvatn fyllist. Kalt vor orsakaði að vorflóð hófust seint í ár.

Landsvirkjun gerir ekki ráð fyrir að Þórisvatn fyllist í haust. Staðan á Þórisvatni og öðrum miðlunarlónum Landsvirkjunar ætti ekki að hafa áhrif á orkuafhendingu á komandi vetri en það verður metið þegar niðurdráttur lóna hefst í haust.

Rennsli að miðlunarlónum Landsvirkjunar er háð breytilegu veðurfari, þannig eðlilegt er að búast við árum þar sem lónin fyllast ekki.

Hálslón er hins vegar við það að fyllast og er yfirborð þess nú komið í tæpa 625 metra yfir sjávarmáli. Á síðustu sjö dögum hefur lónið hækkað yfir 2 metra þannig að búast má við að það fari á yfirfall um helgina. Það er rúmum þremur vikum síðar en síðasta sumar.

Fyrri greinFjölmenni í sundlaugarafmæli
Næsta greinSunnlensku bílarnir í harðri keppni