Vatnsleysutorfan hlaut verðlaunin í annað sinn

Umhverfisverðlaun umhverfisnefndar Bláskógabyggðar voru afhent í þriðja sinn á hátíðinni Tvær úr Tungunum á dögunum.

Veittar voru viðurkenningar fyrir snyrtilegasta sveitabýlið í rekstri. Áður hefur umhverfisnefndin veitt viðurkenningu fyrir snyrtilegasta garðinn og snyrtilegustu iðnaðarlóðina.

Þau býli sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni voru í þriðja sæti; Heiðarbær I og III í Þingvallasveit. Þau fengu viðurkenningu fyrir snyrtileika og gott skipulag á fallegum stað. Ábúendur eru Jóhannes Sveinbjörnsson, Ólöf Björg Einarsdóttir og Steinunn Guðmundsdóttir.

Í öðru sæti var Fellskot sem fékk viðurkenningu fyrir fallega aðkomu, stíl og samræmi í húsakosti. Staðnum er vel við haldið og snyrtilegur. Ábúendur eru Kristinn Antonsson, María Þórarinsdóttir, Bent Larsen Fróðason, Líney Sigurlaug Kristinsdóttir.

Í fyrsta sæti var Vatnsleysa I-III. Þau hlutu verðlaun fyrir fallegt bæjarstæði og samræmi í húsakosti. Framúrskarandi snyrtimennsku við íbúðarhús og útihús. Þau fengu að auki stig fyrir snyrtilega klippta runna og fyrir vinnuvélar sem var vel við haldið. Ábúendur á Vatnsleysu I eru Guðmundur Sigurðsson, Sigríður Egilsdóttir og Rúnar Guðmundsson. Á Vatnsleysu II Bragi Þorsteinsson, Halla Bjarnadóttir og Ingunn Birna Bragadóttir. Á Vatnsleysu III Sigurður Erlendsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir.

Vatnsleysutorfan hefur áður hlotið umhverfisverðlaun en þar sem snyrtimennskan er svo framúrskarandi taldi umhverfisnefndin ekki hægt að ganga framhjá þeim við verðlaunaveitingu.

Það var Herdís Friðriksdóttir formaður umhverfisnefndar Bláskógabyggðar sem afhenti verðlaunin.

Fyrri greinUppgert veiðihús orðið að safni
Næsta greinMöguleg sameining kynnt aðildarsveitarfélögum