Vatnshiti ógnar öryggi heimilismanna

Hjúkrunarforstjóri hjúkrunar- og dvalarheimilisins Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri segir eftirlitsaðila hafa bent á að vatnshiti í blöndunartækjum sé alltof hár og ógni öryggi heimilismanna.

Þá liggja ýmsar innréttingar undir skemmdum að hennar mati vegna þess að viðhaldi hefur ekki verð sinnt. Hún hefur ritað sveitarstjórn bréf með þessum ábendingum sínum og öðrum hvað varðar endurbætur á húsnæði og starfsemi Klausturhóla varðar.

Segist hjúkrunarforstjórinn, Anna Guðný Gunnlaugsdóttir, vera búin að gera ýmsar tillögur að endurbótum og framhaldsframkvæmdum enda hafi vinnueftirlitið bent þar á ýmsa hluti sem betur megi fara.

„Má þar nefna að sturtuhalli í dvalarheimilishluta Klausturhóla er öfugur og liggja innréttingar þar undir skemmdum af þessum völdum. Mikið ólag er á hitamálum heimilisins, ofnar orðnir lúnir, ótengdir við hitastilla, slökkvarar brotnir og þörf á að gera úttekt á viðhaldi og breytingum. Er þar kostnaður sem að mínu mati má trúlega lækka verulega,“ segir Anna Guðný í bréfinu til sveitaryfirvalda.

Vinnueftirlitið hafi jafnframt bent á rakaskemmdir, loka þurfi múrgötum, laga gólfdúk og fleira. Ekki er langt síðan ráðist var í talsverðar endurbætur á þaki hússins.

Erfitt að hýsa starfsfólk
Þá vekur hjúkrunarforstjórinn einnig athygli á skorti á íbúðarhúsnæði á Kirkjubæjarklaustri. Segir hún að ráðning starfsfólks á Klausturhóla hafi verið viðvarandi vandi í mörg ár, og rót vandans sé skortur á húsnæði.

„Forverar mínir í starfi hafa eytt verðmætum tíma í að finna lausnir, einhvers staðar verður jú starfsfólk að búa. Ég hef ákveðið að ég muni ekki gera það sama og ganga í útvegun húsnæðis meira en orðið er. Mál er að linni, ég tel verkefni sem lúta að hjúkrunarrekstri það sem ég var ráðin til og eigi að sinna,“ segir Anna Guðný.

Hún hefur óskað eftir því að ýmist sveitarstjórn og eða rekstrarnefnd móti verkferla um hvernig staðið verði að nauðsynlegum framkvæmdum.

„Ég hef ákveðið að eyða ekki meira tíma í að reka þessi mál meira en orðið er. Ég óska eftir að eftirrekstur og framkvæmd verði í höndum annarra en hjúkrunarforstjóra. Hver það á að vera legg ég í hendur sveitarstjórnarmanna að ákveða,“ segir Anna Guðný.

Fyrri greinStórt tap á heimavelli
Næsta greinSálin spilar og búist við margmenni