Vatnsflóð í Sunnulækjarskóla

Töluvert vatnsflóð varð í Sunnulækjarskóla á Selfossi í morgun þegar vatn flæddi inn í lyftugöng í Fjallasal í miðrými skólans. Með snarræði starfsmanna og nemenda tókst að takmarka flóðið.

Vatn sem safnast hafði á þak íþróttahússins flæddi inn í lyftugöng í Fjallasal og þaðan um allan salinn. Birgir Edwald, skólastjóri, segir að með snarræði starfmanna og nemenda hafi tekist að takmarka flóðið við Fjallasal uns slökkviliðið koma á vettvang með dælur. Slökkviliðið er að ljúka störfum á vettvangi í þessum skrifuðu orðum.

“Flóðið truflaði skólastarfið nokkuð en ég vil sérstaklega þakka nemendum sem brugðust skjótt við og mynduðu röð með ruslafötur til að flytja eins mikið magn af vatni út úr húsinu og hægt var meðan beðið var eftir slökkviliðinu. Aðrir stóðu sig eins og hetjur á kústum og þveglum,” sagði Birgir.