Vatnselgur á morgun

Á morgun fara skil yfir landið og segir Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni að þeim fylgi nokkuð afgerandi hlákubloti.

„Þótt hann flokkist ekki undir það sem kallast asahláka verður engu að síður talsvert leysingavatn á ferðinni enda bráðnar nýfallni snjórinn auðveldlega þegar hlánar. Blotinn gengur hratt yfir. Byrjar með skammvinnu hríðarkófi suðvestanlands í fyrramálið, en fljótlega upp úr hádegi hlánar og síðdegis er spáð 5 til 6 stiga hita á láglendi sunnan og vestanlands. Norðantil verður þíðan óveruleg. Rigning fylgir og fara skilin hratt yfir. Aðra nótt kólnar síðan aftur niður undir frostmark.“

Eftir ofankomuna undanfarið er nóg af snjó og víða klaki undir. VÍS hvetur húseigendur, sér í lagi á suður- og vesturlandi, til að gæta vel að niðurföllum fyrir morgundaginn og tryggja að vatn eigi greiða leið að þeim. Einnig að moka snjó af svölum og frá húsveggjum til að minnka líkur á leka. Tjón þar sem vatn kemur inn að utan er oft ekki bótaskylt og þá situr fólk sjálft uppi með það.

Gera má ráð fyrir að vatnselgur geti orðið nokkur á götum. Mikilvægt er að hægja á þar sem svo háttar til og leitast við að aka utan vatsnrása því ella er hætta á að bílar fljóti upp og ökumaður missi stjórnina. Þá geta aðstæður á morgun jafnframt verið varasamar fyrir bæði gangandi og hjólandi og nauðsynlegt fyrir alla að fara varlega.

Fyrri greinEngir venjulegir gluggar
Næsta greinSvæðið við Kríuna deiliskipulagt