Vatnavextir en engin eðjuflóð

Allnokkrir vatnavextir urðu í ám undir Eyjafjöllum í gær en engin eðjuflóð komu úr giljum undir Eyjafjallajökli.

Varað var við hugsanlegum eðjuflóðum í gærmorgun vegna mikilla rigninga og fylgdust lögregla og Veðurstofa Íslands grannt með stöðunni í gær.

Vatnsborð hækkaði hins vegar mikið í ám á svæðinu og náði Svaðbælisá t.d. nær alveg uppundir brúargólf í gærkvöldi. Vinnuvélar frá Suðurverk grófu hins vegar uppúr árfarveginum þannig að ekki var hætta á að áin færi yfir brúna.